„Það léttir náttúrulega yfir okkur að þessi viðbótarúthlutun, sem við eigum von á núna, hún gerir okkur kleift að halda lágmarksumsvifum í gangi. Svo gælum við við það að meiri loðna finnist,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjarbæjar, vegna þeirra frétta að loðnuveiðar hafi verið heimilaðar á ný.
Hann segir í samtali við mbl.is að flest bendi til þess að meiri loðna muni finnast. „Ég var að koma úr Hugin VE, sem var að koma af miðunum, og hann var með 1.000 tonna kast í hádeginu í dag og sprengdi nótina, og náði ekki nema 30 tonnum um borð,“ segir Elliði. Hann segist hafa það eftir skipverjunum, og fiskifræðingi sem var með þeim um borð, að fiskitorfan sé um 470.000 tonn. Elliði bendir á að enn eigi eftir að mæla göngurnar sem séu austur frá.
„Það verður alveg öruggt að höggið verður minna en við vorum farin að búa okkur undir og horfa framan í. En það er talsverður skaði skeður nú þegar. Hrognafylling er orðin rúmlega 20%, þannig að þegar eru þetta hundruð milljóna sem að stoppið hefur kostað okkur. En í öllum tilvikum verður þetta minna en við héldum.“