Mannekla og tímaleysi á heilbrigðisstofnunum er sérstakt áhyggjuefni og eykur hættuna á mistökum. Gögn frá heilbrigðisyfirvöldum á Vesturlöndum sýna að um 10 prósent sjúklinga verða fyrir mistökum starfsfólks eða óvæntum atvikum – minniháttar eða alvarlegum. Þessar tölur má heimfæra upp á Ísland.
Skráningu atvika er mjög ábótavant hér á landi og hefur landlæknisembættið hvatt til þess að úr því verði bætt. Dreifibréf hefur verið sent til allra heilbrigðisstofnana og fagfélaga heilbrigðisstétta þess efnis.
Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið honum tjóni.