Bílaumboðið Ingvar Helgason ehf. hefur fyrir hönd Nissan í Evrópu hafið þjónustuinnköllun á pallbílum af gerðinni Nissan Navara. Bílarnir eru kallaðir inn til þess að endurstilla megi ræsibúnaðinn sem stjórnar því hvernig loftpúðar bílsins springa út við árekstur framan á hann. Endurstillingunni er ætlað að tryggja hraðari ræsingu loftpúðanna.
Þjónustuinnköllunin nær til allra Navara-pallbíla af nýju gerðinni sem seldir voru frá byrjun árs 2005 til loka árs 2007. Eigendum er boðið að heimsækja Ingvar Helgason á Sævarhöfða 2, eða einhvern viðurkenndan þjónustuaðila, til þess að láta endurstilla ræsibúnaðinn, samkvæmt frétt á vef Ingvars Helgasonar.
Ingvar Helgason mun hafa samband við alla eigendur Nissan Navara bréfleiðis til þess að tryggja að bílarnir sem um ræðir séu með þennan endurbætta hugbúnað.
Eigendurnir verða beðnir um að hafa samband við þjónustuver Ingvars Helgasonar við fyrsta hentugleika. Endurstillingin ætti að taka mjög skamma stund og er eigendunum að kostnaðarlausu.
Í fréttatilkynningu frá Nissan í Evrópu kemur fram að fyrirtækinu sé ekki kunnugt um að nein óhöpp hafi orðið í tengslum við seldar bifreiðar.