Árni Helgason, fyrrverandi stöðvarstjóri Pósts og síma í Stykkishólmi, lést í gærmorgun á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi, á 94. aldursári. Árni var heiðursborgari Stykkishólmsbæjar. Hann var fréttaritari Morgunblaðsins í Stykkishólmi í meira en hálfa öld.
Árni var fæddur í Reykjavík 14. mars 1914, sonur hjónanna Vilborgar Árnadóttur og Helga G. Þorlákssonar. Hann ólst upp á Eskifirði. Vann þar ýmis störf til sjós og lands þar til hann varð sýsluskrifari 1938. Árni flutti til Stykkishólms á árinu 1942, var þar sýsluskrifari og síðar stöðvarstjóri Pósts og síma frá 1954 þar til hann lét af störfum í lok árs 1984. Hann var einnig umboðsmaður Brunabótafélags Íslands, Loftleiða og Flugleiða og var stofnandi og stjórnandi útgerðarfélaga.
Árni var virkur í félagsmálum. Hann tók þátt í bæjarmálum í Stykkishólmi og stjórnmálum á vegum Sjálfstæðisflokksins og vann fyrir mörg félög og samtök. Hann var meðal stofnenda Lúðrasveitar Stykkishólms, Tónlistarfélags Stykkishólms og Lionsklúbbs Stykkishólms, stofnaði stúkuna Helgafell og var gæslumaður barnastúkunnar Bjarkar. Árni gerðist fréttaritari Morgunblaðsins á árinu 1943 og sendi blaðinu reglulega fréttir þar til fyrir fáeinum árum að Gunnlaugur sonur hans tók við. Hann var einnig fréttaritari Ríkisútvarpsins og Sjónvarpsins í mörg ár.
Árni kvæntist Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur kennara 1948. Hún lést 1994. Börn þeirra eru Gunnlaugur framkvæmdastjóri, Halldór skrifstofustjóri, Helgi skólastjóri og Vilborg Anna grunnskólakennari.
Árni Helgason átti samleið með Morgunblaðinu í sjö áratugi, þar af fréttaritari í meira en hálfa öld. Við leiðarlok færir blaðið Árna þakkir fyrir frábær störf og vináttu við starfsmenn þess og sendir aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.