Aukið aðhald hjá Reykjavíkurborg

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag tillögu Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, um aðgerðir til aukins aðhalds við yfirstjórn borgarinnar samhliða þriggja ára áætlun. Þar segir að nauðsynlegt sé að kanna aðgerðir sem leitt geti til sparnaðar, sérstaklega kostnað við nefndir og ráð borgarinnar.

Jafnframt verði leitað nýrra leiða til aukins aðhalds án þess að það hafi áhrif á þjónustu við borgarbúa. Stjórnkerfisnefnd var falið að vinna tillögur um slíkar aðgerðir og leggja fyrir borgarráð eigi síðar en 1. maí nk.

Segist Ólafur vilja með þessari tillögu  leggja sitt að mörkum til að koma á sparnaði og aðhaldi í fjármálastjórn borgarinnar.

Fulltrúar minnihlutaflokkanna í borgarráði lögðu fram bókun um að það veki hins vegar upp spurningar hvers vegna borgarstjóri tiltaki sérstaklega rekstur við nefndir og ráð en ekki í eigin ranni. Lýðræðisleg umræða og ákvörðunartaka í nefndum og ráðum sé án efa ekki að ríða baggamuninn í rekstri borgarinnar. Skemmst sé að minnast ráðleysis meirihlutans við mönnun í nefndir og því vakni spurning hvort það sé einstök tilviljun að beita eigi sparnaðarhnífnum þar.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert