Aukið samráð við íbúa borgarinnar

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, kynnir verkefnið.
Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, kynnir verkefnið. mbl.is/Frikki

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, ýtti í dag samráðsverkefninu 1,2 og Reykjavík formlega úr vör í hverfisstöð Framkvæmdasviðs við Stórhöfða. Felur verkefnið í sér viðtækt samráð við íbúa í hverfum borgarinnar um viðhaldsverkefni og smærri nýframkvæmdir. Óskað er eftir ábendingum frá íbúum eftir tveimur leiðum.

Annars vegar leitar stýrihópur í hverju hverfi fjölbreyttra leiða til að virkja börn, unglinga og fullorðna til að setja fram hugmyndir og ábendingar um viðhaldsverkefni og nýframkvæmdir í viðkomandi hverfi. Hins vegar verður hægt að koma ábendingum á framfæri á sérstökum ábendingavef samráðsins á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Á ábendingavefnum gefst notendum kostur á að koma á framfæri eigin ábendingum með skýringum og fylgjast með stöðu – eigin ábendinga og annarra. Hægt er að færa ábendingar inn á hverfiskort, skoða yfirlit yfir þær og styðja ábendingar annarra. Tölfræði eftir hverfum og málaflokkum verður aðgengileg á vefnum.

Ábendingum um nauðsynlegt viðhald verður veitt til viðkomandi hverfastöðvar Framkvæmda- eða Umhverfis- og samgöngusviðs. Hugmyndir um nýframkvæmdir og stærri viðhaldsverkefni verða kynntar og ræddar á opnum samráðsfundum með borgarstjóra á tímabilinu frá 12. apríl til 3. maí. Niðurstöður verða sendar íbúum í bæklingi eða með öðrum hætti með vorinu. 

Vefur Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert