Nafnávöxtun eigna Sameinaða lífeyrissjóðsins var 5,9% sem er jafnt hækkun vísitölu neysluverðs á árinu. Meðal raunávöxtun sl. 5 ára er 7,5%. Eignir sjóðsins við áramót námu 96,6 milljörðum króna og höfðu hækkað um 8,2 milljarða milli ára eða um 9,3%.
Þannig voru eignir umfram áfallnar skuldbindingar 7.119 milljónir króna eða 8% og eignir umfram heildarskuldbindingar voru 2,8% í lok árs 2007.
Inneignir í séreignasparnaði námu alls 3,8 milljörðum króna í árslok og var ávöxtun einstakra leiða í takt við þróun markaða á árinu. Segir sjóðurinn, að þær leiðir, sem höfðu meira vægi skuldabréfa, hafi almennt komið betur út en þær sem vægi hlutabréfa var hátt. Tæplega 80% eigna í séreignarsparnaði sjóðsins eru í innlendum skuldabréfum.
Í samræmi við breytingar á samþykktum sjóðsins sem ákveðnar voru á síðasta ársfundi voru grunndeildir sjóðsins, stigadeild og aldurstengd deild sameinaðar um sl.áramót í eina tryggingadeild. Vegna sameiningarinnar voru áunnin réttindi í aldurstengdri deild hækkuð um 10,62%, en allir greiðandi sjóðfélagar áttu a.m.k. hluta réttinda sinna þar.