Bráðabirgðaflugstöð í Vatnsmýri

Talsmenn Flugstoða eru bjartsýnir á að skipulagssvið Reykjavíkurborgar samþykki 500 fermetra bráðabirgðahúsnæði fyrir innlandsflug Iceland Express gegnt núverandi flugstöð á Reykjavíkurflugvelli.

Iceland Express hyggst hefja innlandsflug á næstunni og er ætlunin að umrætt bráðabirgðahúsnæði, ásamt flughlaði og bílastæðum, hýsi þjónustu félagsins þangað til allt innanlandsflugið á Reykjavíkurflugvelli færist inn fyrir veggi samgöngumiðstöðvarinnar, sem fyrirhugað er að hafi risið í Vatnsmýrinni árið 2010.

Að sögn Matthíasar Imsland, forstjóra Iceland Express, hefur ekki verið ákveðið hvenær flugið hefjist, komist málið á skrið muni undirbúningur ekki taka langan tíma.

Flugstoðir annast rekstur Reykjavíkurflugvallar og að sögn Hrafnhildar B. Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, hefur Iceland Express ekki fengið úthlutað lóð, heldur bráðabirgðaaðstöðu. Fjármögnun hafi verið tryggð og Flugstoðir sent skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar erindi þar sem framkvæmdaleyfis sé óskað.

Að sögn Helgu Bjarkar Laxdal, lögfræðings hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, hefur fyrirspurn Flugstoða frá 12. febrúar um bráðabirgðaflugstöð ekki verið tekin formlega fyrir á fundi skipulagsráðs. Ekki liggi fyrir nein afstaða skipulagsstjóra í Reykjavík, sem fyrirspurninni er beint til. Hægt væri að afgreiða fyrirspurnina á fundi skipulagsstjóra á föstudag þarfnist hún ekki frekari rýni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert