Brýnast að koma á stöðugleika

Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunin, OECD, segir í nýrri skýrslu um íslensk efnahagsmál að helsta verkefni stjórnvalda sé að koma á efnahagslegum stöðugleika að nýju. Stofnunin segir að þótt staða ríkisfjármála sé hagstæð sé stöðugur útgjaldaþrýstingur í heilbrigðiskerfinu sem þurfi að bregðast við, m.a. með auknum einkarekstri.

OECD áætlar að hagvöxtur hafi verið 1,2% á síðasta ári, verði 1% á þessu ári og 1,6% árið 2009. Verðbólga, sem var 4,9% á síðasta ári, verður 4,4% á næsta ári og 2,8% árið 2009. Þá gerir OECD ráð fyrir lækkandi stýrivöxtum Seðlabankans, þeir verði að meðaltali 13,6% á þessu ári og 9,9% á því næsta.

OECD segir, að eftir umtalsverðar kerfisbreytingar og uppbyggingu með erlendu fjármagni hafi íslenska hagkerfið vaxið hratt í nokkur ár og það hafi valdið miklu ójafnvægi. Þótt hægt hafi á hagvexti og dregið hafi úr ójafnvæginu hafi aðlögunarferlið verið skrykkjótt og launahækkanir og ýmsar opinbera ráðstafanir leit til vaxandi verðbólgu á árinu 2007.

Stofnunin segir, að íslenska efnahagskerfið sé afar sveigjanlegt og hafi mikið þanþol en það sé jafnframt viðkvæmt fyrir breytingum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði eins og sést hafi af nýlegum gengis- og hlutabréfaverðsveiflum. Þess vegna sé helsta verkefni í efnahagsmálum í náinni framtíð að koma á jafnvægi í peningamálum með því að tryggja að úr sveiflunum dragi með jöfnum og stöðugum hætti.

Þá þurfi að grípa til aðgerða til að styrkja bæði stjórn bæði efnahags- og peningamála og koma í veg fyrir að sveiflurnar hefjist að nýju þegar hagvöxtur glæðist.

OECD segir, að þegar til lengri tíma sé litið sé ljóst að víða verði þrýst á stjórnvöld um útgjöld og það verkefni sem sé brýnast sé að koma á endurbótum í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisþjónustan sé afar góð en á sama tíma mjög útgjaldafrek og það bendi til þess, að svigrúm sé til að nýta fjármuni betur og auka skilvirkni.

Stofnunin segir, að stjórnvöld eigi að gera það alveg ljóst, að Seðlabankinn muni ekki hika við að herða enn á peningamálastjórnun telji hann það nauðsynlegt til að koma böndum á verðbólgu. Segir OECD, að til að styðja virkni peningamálastjórnunarinnar væri ekki verra, ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar virtu sjálfstæði Seðlabankans til að móta og framfylgja eigin stefnu.

Þá ættu stjórnvöld að forðast aðgerðir, sem hafa í för með sér útgjöld á meðan verðbólguþrýstingur er í kerfinu. Best væri ef hugsanlegar nýjar orkuframkvæmdir gætu bæst við í áföngum. OECD segir, að slíkar framkvæmdir megi þó ekki hefjast nema að undangenginni gegnsærri hagkvæmniathugun þar sem m.a. sé hugað að umhverfisáhrifum.

OECD ítrekar að þörf sé á að endurskilgreina hlutverk Íbúðalánasjóð, sem grafi undan virkni peningamálastefnunnar og auki á ójafnvægið. Það minnsta sem hægt sé að gera sé að láta sjóðinn greiða leyfisgjald sem endurspegli þann hag, sem hann hafi af því að vera ríkisstofnun. Einnig mælir OECD með, að skilið sé á milli félagslegs hlutverks sjóðsins og heildsölustarfsemi hans á markaði. 

Í heilbrigðiskerfinu segir OECD, að greiða eigi fyrir auknum einkarekstri, sem nú sé aðeins um fjórðungur af heilbrigðiskerfinu. Þá eigi að opna heilbrigðiskerfið fyrir samkeppni og bæta þannig nýtinguna og gefa sjúklingum aukið val.Þá eigi stjórnvöld að íhuga að auka kostnaðarhluta sjúklinga til að koma í veg fyrir ofneyslu á heilbrigðisþjónustu eins og það er orðað og draga úr ríkisútgjöldum.

Loks segir OECD, að draga þurfi úr kostnaðarsömum sjúkrahúslegum og draga úr lyfjakostnaði með aukinni notkun samheitalyfja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert