Haustið 2007 voru 7.615 starfsmenn í grunnskólum á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 42 frá hausti 2006 eða um 0,6%. Starfsmenn við kennslu voru 4.990 í 4.978 stöðugildum og hefur fjölgað um 21 frá fyrra ári, sem er 0,4% fjölgun. Stöðugildum starfsmanna við kennslu hefur fjölgað um 178 eða um 3,7%, sem þýðir að hver kennari vinnur meira að meðaltali en árið áður.
Starfsmönnum við kennslu fjölgar þrátt fyrir að grunnskólanemendum hafi fækkað um 73 frá síðasta skólaári. Sérkennurum fjölgar um 38 frá fyrra ári (8,0%) og skólastjórar eru 11 fleiri en árið á undan (6,4% fjölgun). Þessar tölur eru úr gagnasöfnun Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um starfsfólk í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.
Konur eru í fyrsta skipti fleiri í hópi skólastjóra
Karlmönnum fækkar meðal starfsmanna við kennslu og eru þeir nú 21,0% kennara. Í þau 10 ár sem Hagstofan hefur birt upplýsingar um starfsfólk í grunnskólum hafa karlmenn ávallt verið fleiri meðal skólastjóra, þar til í ár, þegar 95 konur og 89 karlar eru skólastjórar. Eina starfsstéttin innan grunnskólans þar sem karlar eru nú í meirihluta eru húsverðir.
Tæplega 85% starfsfólks við kennslu hefur kennsluréttindi
Alls hafa 84,8% starfsmanna við kennslu kennsluréttindi og lækkar hlutfall þeirra um rúmlega eitt prósentustig frá fyrra ári. Haustið 2005 var þetta hlutfall 86,7% og hefur því hlutfall réttindakennara lækkað um tæplega tvö prósentustig á þessum tveimur árum. Hæst er hlutfall réttindakennara á landinu í Reykjavík þar sem 91,4% kennara hafa kennsluréttindi. Hlutfall réttindakennara í Reykjavík hefur lækkað um tæp tvö prósentustig frá hausti 2006. Lægst er hlutfall réttindakennara á Vestfjörðum og Austurlandi þar sem 63,9% og 66,3% kennara hafa kennsluréttindi.
Vert er að geta þess að 93,3% starfsmanna með kennsluréttindi hafa lokið háskólaprófi. Eldri kennurum með kennsluréttindi, sem luku prófi áður en kennaramenntun var flutt á háskólastig, fækkar ár frá ári, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.
Brottfall úr kennslu eykst á milli ára
Alls hafði 871 starfsmaður við kennslu í október 2006 hætt eða fengið leyfi frá störfum í október 2007, og er brottfallið 17,5%. Þetta er meira brottfall en mælst hefur í gagnasöfnun Hagstofu Íslands frá árinu 1997. Brottfall úr kennslu er hlutfallslega meira meðal þeirra sem ekki hafa kennsluréttindi og meðal þeirra sem eru í hlutastarfi.