Vinningstillaga í samkeppni um hönnun nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut verður að öllum líkindum kynnt í nóvember nk., hönnunarvinna unnin á næsta ári og framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjast sama ár eða árið 2010. Hægt verður að kynna sér verkefnið á opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag kl. 17.
Óhætt er að segja að nýtt háskólasjúkrahús – áður hátæknisjúkrahús – sé umdeild framkvæmd. Ekki síst hefur styr staðið um staðsetningu sjúkrahússins og aðgengi að stofnuninni. Árið 2002 var ákveðið að sjúkrahúsið myndi rísa við Hringbraut, en þegar ný nefnd um byggingu spítalans var skipuð síðastliðið haust, undir formennsku Ingu Jónu Þórðardóttur, var það eitt fyrsta verkefni hennar að fara yfir alla kosti að nýju.
Auk Hringbrautar voru til skoðunar Fossvogur, Vífilsstaðir og Keldur. „Í þessu endurmati okkar fórum við yfir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Við skoðuðum umferðaræðar, umferðarflæði og umferðarspár næstu ára og áratuga,“ sagði Inga Jóna á fundi með blaðamönnum í gærdag. Í Fossvogi var m.a. fundið að aðkomu að spítalanum sem þykir helst til of þröng, Vífilsstaðir þykja ekki hentugur staður og þá sérstaklega þar sem umferðarspár gera ráð fyrir mun meiri umferðarþunga á næstu árum og áratugum heldur en nokkurn tíma við Hringbraut. Sömu sögu var að segja um land Keldna. Að öllu þessu virtu, þótti Hringbrautin standa upp úr.