„Við munum kanna hvort við getum beitt okkur fyrir því að forsvarsmenn Techno.is fái ekki fleiri skemmtanaleyfi, því við teljum að þeir hafi brotið gegn þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla,“ segir Bergþóra Njálsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOKs.
Starfsfólki Heimilis og Skóla, SAMFOKs og Hins Hússins hefur undanfarið borist fjöldi hringinga frá áhyggjufullum foreldrum, sem segja börnum á grunnskólaaldri vera hleypt inn á böll hjá Techno.is og börnum undir lögaldri selt þar áfengi.
Um er að ræða böll haldin á Nasa og Broadway, þar sem krakkar á aldrinum 16 til 18 ára skemmta sér til kl. 23. Eftir það eiga krakkar yngri en 18 ára að fara út, og við tekur skemmtun fyrir alla aldurshópa.
Eftir síðasta Techno.is ball, sem haldið var fyrr í febrúar, þurfti 16 ára drengur að leita sér aðstoðar á heilsugæslustöð vegna e-pillu sem hann hafði tekið á ballinu.
„Reynslan hefur sýnt að á böllum þessum hefur gæslan ekki verið eins og hún á að vera,“ segir Bergþóra. Hún segir að faðir stúlku á grunnskólaaldri, sem hafi haft samband við SAMFOK, hafi fylgst með dyravörðum Broadway hleypa jafnöldrum stúlkunnar inn á Techno.is böllin.
Þá segir Bergþóra fjölda ábendinga hafa borist um að krökkum undir 18 ára aldri sé síður en svo vísað út af böllunum kl. 23, þegar byrjað er að selja áfengi.
„Það hefur aldrei neitt farið úrskeiðis á böllum hjá okkur,“ segir Arnviður Snorrason, skipuleggjandi Techno.is-ballanna.
Arnviður segir ballstöðunum lokað, og tryggt að enginn yngri en 18 ára sé á staðnum, áður en áfengissala hefst kl. 23. Þá bendir hann á að öryggisgæsla sé mikil á böllunum, og Rauði krossinn og lögreglan sé á staðnum.
„Það er miklu betra að við séum að gera eitthvað fyrir þessa krakka, þar sem þeir eru undir eftirliti, heldur en að þeir séu t.d. að væflast eftirlitslausir um í einhverjum partíum niðri í bæ fram á rauðu nótt,“ segir Arnviður.