Icelandair mátti segja flugmanni upp

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Icelandair hafi mátt segja flugmanni upp störfum en flugmaðurinn átti við áfengisvanda að etja. Flugmaðurinn hafði áður fengið áminningu en gerði samkomulag við félagið um að hann héldi starfi sínu ef hann gæti sýnt fram á að hann hefði náð tökum á vanda sínum. Icelandair taldi síðan að það hefði flugmanninum ekki tekist.

Hæstiréttur segir, að skoða verði samkomulag aðila í ljósi þess að flugmaðurinn hefði áður fengið áminningu í tilefni af áfengisvanda sínum. Hefði hann þá gengist undir meðferð vegna hans en tekið síðan aftur til starfa með því skilyrði að hann hefði náð fullum tökum á vandamálinu og ef annað kæmi á daginn myndi hann fyrirgera starfi sínu hjá Icelandair.

Hæstiréttur segir, að þegar samkomulag aðila var gert hafi Icelandair því átt völ á að segja flugmanninum þegar upp störfum en samþykkt þess í stað að fresta þeirri ráðstöfun. Icelandair áskildi sér jafnframt í samkomulaginu, að það yrði í höndum félagsins að meta hvort flugmaðurinn gæti sýnt fram á að hann hefði að liðnu ári náð varanlegum tökum á vanda sínum. Var það mat forráðamanna Icelandair að þetta hefði flugmanninum ekki tekist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert