Íslendingar ætla að viðurkenna sjálfstæði Kosovo

Kosovo-Albanar í höfuðborginni Pristina fagna sjálfstæðisyfirlýsingu landsins.
Kosovo-Albanar í höfuðborginni Pristina fagna sjálfstæðisyfirlýsingu landsins. AP

Íslensk stjórnvöld ákveðið að viðurkenna sjálfstæði Kosovo en ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun um dagsetningu. Utanríkisráðuneytið segir, að vegna hinna sérstöku aðstæðna í Kosovo muni viðurkenning á sjálfstæði þess ekki hafa fordæmisgildi.

Ráðuneytið segir, að hafa beri öryggi og stöðuleika á svæðinu að leiðarljósi, einkum í ljósi þeirra átaka og ofbeldisverka sem lagt hafi líf hundruða þúsunda í rúst. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo felist skýr skuldbinding um að virða mannréttindi og rétt minnihlutahópa. Sé mikilvægt að sú skuldbinding verði virt.

Jafnframt sé ljóst að finna verði varanlega lausn á ólíkum sjónarmiðum Kosovo-Albana og Serba og sé miður, að ekki náðist samkomulag á grunni tillagna Martti Ahtisaari, sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna. Miklu máli skiptir að alþjóðasamfélagið styðji áfram uppbyggingu í Kosovo og stuðli að varanlegum friði á Balkanskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka