María Sigurðardóttir hefur verið ráðin leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi sem er nýhafinn hjá félaginu. María er leikari að mennt og margreyndur leikstjóri. Hún leikstýrði m.a. Fló á skinni sem nú er sýnd hjá LA.
Tólf sóttu um stöðuna en ráðið er í hana frá 1. mars. María vinnur við hlið fráfarandi leikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, fram á vor við undirbúning næsta leikárs. Magnús Geir hefur sem kunnugt er verið ráðinn leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur.
María er fædd 1954 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1983 og lék eftir það um árabil hjá Þjóðleikhúsinu og Alþýðuleikhúsinu. María hefur leikstýrt fjölda verka á síðustu árum hjá Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Íslands, Sögn ehf. og Þjóðleikhúsinu og má þar nefna Fegurðardrottninguna frá Línakri, Pétur Pan, Sex í sveit, Honk! Ljóta andarungann, Leitina að vísbendingu, Fífl í hófi og Sýnda veiði. Síðustu tvö verkefni Maríu hjá atvinnuleikhúsunum hafa verið Hálsfesti Helenu í Þjóðleikhúsinu og Fló á skinni hjá Leikfélagi Akureyrar.
Þá hefur María unnið að gerð 10 kvikmynda sem fyrsti aðstoðarleikstjóri og leikstýrt eigin söngvamynd fyrir börn, Regínu, ásamt því að vinna að heimildamyndagerð.