María Sigurðardóttir ráðin leikhússtjóri LA

María ávarpar starfsfólk Leikfélags Akureyrar á fundi nú undir kvöld. …
María ávarpar starfsfólk Leikfélags Akureyrar á fundi nú undir kvöld. Á myndinni eru einnig Sigmundur Ernir Rúnarsson, formaður stjórnar LA, og Karl Frímannsson, stjórnarmaður. Árvakur/Skapti

María Sigurðardóttir hefur verið ráðin leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi sem er nýhafinn hjá félaginu. María er leikari að mennt og margreyndur leikstjóri. Hún leikstýrði m.a. Fló á skinni sem nú er sýnd hjá LA.

Tólf sóttu um stöðuna en ráðið er í hana frá 1. mars. María vinnur við hlið fráfarandi leikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, fram á vor við undirbúning næsta leikárs. Magnús Geir hefur sem kunnugt er verið ráðinn leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur.

María er fædd 1954 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1983 og lék eftir það um árabil hjá Þjóðleikhúsinu og Alþýðuleikhúsinu. María hefur leikstýrt fjölda verka á síðustu árum hjá Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Íslands, Sögn ehf. og Þjóðleikhúsinu og má þar nefna Fegurðardrottninguna frá Línakri, Pétur Pan, Sex í sveit, Honk! Ljóta andarungann, Leitina að vísbendingu, Fífl í hófi og Sýnda veiði. Síðustu tvö verkefni Maríu hjá atvinnuleikhúsunum hafa verið Hálsfesti Helenu í Þjóðleikhúsinu og Fló á skinni hjá Leikfélagi Akureyrar.

Þá hefur María unnið að gerð 10 kvikmynda sem fyrsti aðstoðarleikstjóri og leikstýrt eigin söngvamynd fyrir börn, Regínu, ásamt því að vinna að heimildamyndagerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka