Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn 3 mönnum sem eru ákærðir fyrir að hafa veist að lögreglumönnum þar sem þeir voru við hefðbundið fíkniefnaeftirlit á Laugaveginum, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Mennirnir neituðu allir fyrir dómi að hafa ráðist á lögregluþjónana.
Sögðust þeir að í versta falli væri hægt að segja að þeir hafi ýtt aðeins við lögregluþjónunum þegar þeir voru að verja vinkonu sína. Þremenningarnir sögðust hafa verið að aka niður Laugaveginn þegar þeir sáu menn vera að hafa afskipti af kvenmanni, en mennirnir sem um ræðir eru í fíkniefndadeild lögreglunnar. Að þeirra sögn hófust afskipti þeirra að málinu er kona sem var með þeim í bílnum sagðist þekkja konuna sem lögreglan hafði afskipti af.
Þegar umrædd vinkona hafði brugðið sér út úr bílnum til að athuga hvað var á seyði hafi lögreglan ýtt við henni og þá hafi þeir komið henni til varnar. Þrátt fyrir það að vinkona þeirra hafi borið vitni um að séð nánast rothögg ríða af gagnvart lögreglumönnunum, þá neita þeir eigi að síður sök.
Einn mannanna sagðist fyrir dómi í morgun hafa misst bæði vinnu og húsnæði í kjölfar málsins. Áfengi hafði verið haft um hönd þetta umrædda kvöld og tveir mældust með 0,67 prómil í blóði.
Þremenningarnir voru handteknir eftir árásina ásamt stúlkunni sem var með þeim en hún var látin laus fljótlega. Tveir menn, sem grunaðir voru um aðild að árásinni, voru handteknir síðdegis daginn eftir en þeir eru ekki ákærðir í málinu. Mennirnir eru á aldrinum 19-25 ára. Lögreglumaður, sem hlaut þungt höfuðhögg og heilahristing í árásinni, var fluttur á sjúkrahús og var frá vinnu í nokkra daga á eftir.