Nýr bjór kemur á markað um helgina

Skjálfti er nýr bjór sem kemur á markað á afmælisdegi …
Skjálfti er nýr bjór sem kemur á markað á afmælisdegi bjórsins, 1. mars. Bjarni Einarsson

Nýr sæl­kera­bjór, Skjálfti, kem­ur á markað um helg­ina á bjór­deg­in­um svo­nefnda 1. mars, en 19 ár eru liðin frá því bjór­sala var lög­leidd á Íslandi.  Bjarni Ein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri brugg­húss­ins Ölvis­holts í Flóa­hreppi seg­ir að mik­il áhersla sé lögð á gæði og val á hrá­efni við fram­leiðslu Skjálfta.

„Skjálfti er svo­kallaður sæl­kera­bjór, mjög mikið er lagt í fram­leiðslu hans. Við not­um marg­ar korn­teg­und­ir og sér­stakt ger, sem gef­ur eft­ir­minni­legt bragð og set­ur djúp­an gyllt­an lit á bjór­inn.  Fram­leiðslan er eig­in­legt hand­verk þar sem áhersla er lögð á að brugg­meist­ari og starfs­fólk stýri brugg­un­inni með eft­ir­liti," seg­ir Bjarni.

Bjarni seg­ir Ölvis­holt hafa átt gott sam­starf við ÁTVR en til að byrja með verður Skjálfti til sölu í tveim áfeng­is­versl­un­um á höfuðborg­ar­svæðinu.  Þó að bjór­inn sé sunn­lensk­ur kveða regl­ur ÁTVR á um að nýj­ar áfengis­teg­und­ir á ís­lensk­um markaði þurfi að fara í reynslu­sölu í tvo mánuði í Heiðrúnu, versl­un ÁTVR að Stuðlahálsi og Vín­búðinni í Kringl­unni.  Hins veg­ar er hægt að nálg­ast bjór­inn í öðrum versl­un­um gegn pönt­un, í hvaða versl­un sem er.

Val­geir Val­geirs­son er brugg­meist­ari Ölvis­holts en hann er menntaður í brugg­un og eim­ingu frá Ed­in­borg í Skotlandi og starfaði Val­geir um tíma hjá brugg­hús­inu Heather Ale í Skotlandi.  Val­geir seg­ir Ölvis­holt stefna á að auka bjórvit­und þjóðar­inn­ar með því að kynna fyr­ir henni nýj­um gerðum og öðru­vísi bjór­bragði. 

Val­geir seg­ir mun­inn á Skjálfta og öðrum lag­er­bjór vera val á hrá­efni. „Skjálfti er dekkri en flest­ir lag­er­bjór­ar, meira af dökku malti er notað sem gef­ur sterk­ara malt­bragð, og gef­ur betri keim, svo nota ég mikið af huml­um sem gefa bjórn­um ljúf­an ang­an," seg­ir Val­geir.

Bjarni seg­ist líta svo á að, að drekka bjór sé upp­lif­un.   „Það  má segja að nýr kafli í bjór­menn­ingu Íslend­inga hefj­ist, með komu nýs sæl­kera­bjórs," seg­ir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert