Þarf að skoða áhrif þunglyndislyfja betur

„Þetta er áhugavert innlegg sem þarf að skoða betur og í samhengi við gögn sem liggja fyrir og eru mikil að vöxtum og hafa sýnt greinilega meiri árangur af meðferð þunglyndislyfja en þarna er verið að gefa til kynna,“ segir Engilbert Sigurðsson, geðlæknir, yfirlæknir við geðsvið Landspítala, um nýja breska rannsókn sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu þar sem rannsakendur telja sig hafa komist að þeirri niðurstöðu að áhrif þunglyndislyfja séu e.t.v. minni en hingað til hefur verið talið, en þó mest hjá þeim sem hafa alvarlegustu einkennin.

Í samtali við Morgunblaðið segir Engilbert best að draga ekki of víðtækar ályktanir út frá birtingu þessara rannsóknaniðurstaðna. Bendir hann á að almennt í læknavísindum sé vægi rannsóknarniðurstaðna metið eftir því hvort þær birtast í virtum og vönduðum tímaritum eða ekki. „Það er vegna þess að virt og vönduð tímarit hafa allt aðra gæðastaðla gagnvart ritrýni og skoðun gagnanna og ályktananna, þ.e. hvort það sé gott samræmi þar á milli,“ segir Engilbert og bendir á að breska rannsóknin hafi aðeins verið birt í veftímariti og því viti hann ekki hvaða kröfur séu gerðar þar til ritrýni.

„Samkvæmt íslenskri rannsókn sem gerð var árið 2004 á viðhorfum Íslendinga til þunglyndislyfja, og kynnt hefur verið á læknaþingum bæði hérlendis og erlendis, telja fjórir af hverjum fimm, sem notað hafa lyf við þunglyndi, kostina við notkun þeirra hafa vegið þyngra en ókostina,“ segir Engilbert.

Að sögn Engilberts hafa íslenskir læknar reynslu af notkun nýrrar kynslóðar þunglyndislyfja, þ.e. svokallaðra SSRI-lyfja, síðan 1991. „Það er ekki hægt að neita því að mjög mörgum hafa þessi lyf reynst vel, en það er oft persónubundið hvaða lyf henta hverjum og einum, bæði m.t.t. til verkunar og aukaverkana. Sumum henta þó óneitanlega gömlu þunglyndislyfin betur. Þetta er sjaldnast þannig að lyfið sé það eina sem þurfi að gera, heldur er það liður í einstaklingsbundinni meðferðaráætlun,“ segir Engilbert og tekur fram að íslenskum geðlæknum sé raunar mikið í mun að auka aðgengi sjúklinga að samtalsmeðferð, t.a.m. í heilsugæslunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert