Ungir menn fá þunga dóma

Hús Hæstaréttar.
Hús Hæstaréttar.

Hæstiréttur hefur dæmt sex unga menn til fangelsisvistar, þar af þrjá í 3-4 ára fangelsi, fyrir fjölda brota, þar á meðal rán, líkamsárásir, fjölda auðgunarbrota, húsbrot, fíkniefnabrot og brot gegn valdstjórninni. Hæstiréttur þyngdi refsingar nokkurra piltanna umtalsvert frá héraðsdómi.

Dómurinn segir, að við ákvörðun refsingar sé litið til þess að ein líkamsárásanna, sú á leigubílstjórann, var fólskuleg og stórhættuleg og hefði hæglega getað leitt til bana þess sem fyrir henni varð. Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að Stefán hafi slegið bílstjórann tvívegis í höfuðið með hamri. Haft var eftir lækni, að brotið í höfuðkúpunni hafi verið eins og far eftir hamarshaus og hafi þurft mikið högg til þess að valda slíkum áverka. Höggið olli varanlegum vefjaskaða í heila sem leiddi til minnisskerðingar bílstjórans og á hann á hættu að fá flogaveiki af þessum sökum. 

Davíð Þór Gunnarsson, sem er 19 ára, var dæmdur í 3 ára og sex mánaða fangelsi fyrir fjölda auðgunarbrota, nytjastuldi, húsbrot, brot gegn valdstjórninni og umferðar- og fíkniefnalagabrot. Með brotunum rauf Davíð Þór  skilorð eldri dóms þar sem sex af níu mánaða fangelsisrefsingu var skilorðsbundin.

Ívar Aron Hill Ævarsson, 21 árs, var dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir  fjölda auðgunarbrota, þar af þrjú ránsbrot, nytjastuldi, stórfelld eignaspjöll ásamt umferðarlaga- og fíkniefnabrotum.

Að auki var 25 ára karlmaður dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir  auðgunar-, umferðarlaga- og fíkniefnabrot og 27 ára karlmaður í 6 mánuða fangelsi fyrir ýmis auðgunar- og umferðarlagabrot. Einn karlmaður, 27 ára, var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi, m.a. fyrir þrjú rán, en Hæstiréttur fékk upplýsingar um að maðurinn hefði breytt lífi sínu mjög til betri vegar auk þess sem hann hafði ekki áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka