Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að með kaupunum á Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A hafi verið dregið úr trúverðugleika borgarinnar sem skipulagsvalds og vandaðri stjórnsýslu gefið langt nef. Þetta kemur fram í bókun Óskars vegna deiliskipulags Laugavegar.
„Í svari skipulags- og byggingarsviðs kemur fram að leiðarljósið í deiliskipulagi Laugavegsreita var að Laugavegur sé aðalverslunargata Reykjavíkur, þar sem sjónarmið uppbyggingar og varðveislu haldast í hendur. Í stað þess að nýta alla þá vönduðu vinnu sem borgarstarfsmenn, borgarfulltrúar og húsverndarsérfræðingar hafa lagt til og hér hefur verið lögð fram, hefur Sjálfstæðisflokkurinn og borgarstjóri gert þessa vinnu að engu og hleypt upp verði á óbyggðum fermetrum í miðborg Reykjavíkur.
Kaupin á Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A hafa dregið úr trúverðugleika borgarinnar sem skipulagsvalds, hafa sett skipulag Laugavegsreita í uppnám og hleypt upp verði á gömlum húsum í miðborginni. Þessi vinnubrögð eru fáheyrð þar sem virðing fyrir almannafé og vandaðri stjórnsýslu er gefið langt nef," segir í bókun borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.