José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vill fá hugmyndir frá Íslendingum þegar sjávarútvegsstefna ESB verður endurskoðuð á næstu árum. Barroso og Geir H. Haarde ræddu mikið um sjávarútvegsmál og málefni hafsins á fundi sínum í Brussel í gær – ekki þó í samhengi við hugsanlega aðild Íslands að bandalaginu í framtíðinni. Það mál var ekki á dagskrá.
Á blaðamannafundi eftir hádegisverðarfund Geirs og forsetans sagði Barroso sagði að Ísland og ESB ættu þegar í nánu samstarfi, en það mætti enn efla. Þar nefndi hann málefni hafsins sérstaklega, þar með talda baráttu gegn sjóræningjaveiðum í Norður-Atlantshafi. Hann sagði þá Geir hafa rætt sjávarútvegsstefnu ESB og stefnu Íslands „og ég verð að segja að í því efni getum við lært ýmislegt af Íslendingum,“ sagði Barroso. Hann boðaði m.a. aukið samstarf Íslands og Evrópusambandsins um vöktun og eftirlit á hafinu.