Bláa lónið springur út

Loftmynd af Bláa lóninu.
Loftmynd af Bláa lóninu.

Mikillar atvinnusköpunar er að vænta á Suðurnesjum, verði allar þær hugmyndir að veruleika sem ræddar hafa verið um uppbyggingu á svæðinu. Meðal þess sem nefna má í því samhengi er væntanlegt heilsuhótel í Bláa lóninu með um 180 herbergjum og yfir 200 starfsmönnum.

„Það gæti orðið mikil samkeppni um starsfólk hér á Suðurnesjum,“ segir Anna Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og fjárfestinga hjá Bláa lóninu.

Meðal annarra væntanlegra atvinnutækifæra á Suðurnesjum má nefna uppbyggingu menntaseturs, möguleg netþjónabú og álver í Helguvík.

Anna segir atvinnuástandið nú þegar vera erfitt fyrir atvinnurekendur og slegist hafi verið um starsfólk á Suðurnesjum undanfarin ár. Ekkert atvinnuleysi hafi verið á svæðinu, þrátt fyrir að talsvert af störfum hafi horfið með varnarliðinu.

Starfsmannafjöldi tífaldast

Starfsemi Bláa lónsins hefur aukist ár frá ári og voru gestir lónsins um 400 þúsund talsins í fyrra. Síðastliðið haust var lokið við að byggja töluvert við þjónustusvæði lónsins, og nær almenn baðaðstaða nú yfir sex þúsund fermetra svæði. Við það bætist 2.400 fermetra lækningalind og 1.500 femetra þróunarsetur.

Starfsmannafjöldi Bláa lónsins hefur farið úr 20 í 220 á áratug, en þegar hótel verður tekið í notkun við lónið fer fjöldinn vel yfir 400. Gestir Bláa lónsins voru 400 þúsund á síðasta ári. Þar af voru um 25% Íslendingar, sem eru fjölmennasta þjóðin meðal baðgesta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert