Mjög góð veiði var á loðnumiðunum við Vestmannaeyjar í nótt, og í morgun voru þar fimm skip, ýmist að veiðum eða við vinnslu. Einnig voru nokkur á leið á miðin.
Miðin eru skammt undan landi og skipin næstum því uppí fjöru við veiðarnar. Hoffellið kom á miðin í morgun og var um þrjár mílur undan Landeyjarsandi.
Bergur Einarsson skipstjóri sagðist sjá „fallegar lóðningar;" mikið væri af loðnu, en „ég veit ekki enn hverju þetta skilar."
Kvótinn er lítill núna og enginn að flýta sér; allt miðast við að vinna aflann þannig að sem mest verðmæti fáist út úr honum.
Enn er veitt til frystingar á Japansmarkað, en fljótlega tekur við vinnsla á Rússlandsmarkað.