Fékk draumastarfið á ÓL í Vancouver

Kristín M. Jóhannsdóttir.
Kristín M. Jóhannsdóttir. Kristín M. Jóhannsdóttir

Kristín M. Jóhannsdóttir, doktorsnemi í málvísindum við háskólann í Bresku Kólumbíu í Kanada, hefur verið ráðin yfirmaður tungumálaþjónustu vetrarólympíuleikanna, sem fara fram í Vancouver árið 2010.  Kristín mun hafa yfirsjón yfir hópi sjálfboðaliða sem starfa sem túlkar fyrir keppendur.

„Þetta er að mörgu leyti draumastarfið," sagði Kristín við mbl.is. Hún sagði að algjör tilviljun hafi ráðið því að hún sótti um starfið.  „Vinkona mín sendi mér auglýsinguna á netinu fyrir mánuði síðan, daginn áður en umsóknarfrestur rann út." 

Kristín fór strax á fullt að undirbúa umsókn og fékk símtal tveimur vikum síðar.  „Þetta gerðist allt mjög hratt, fyrst fór ég í símaviðtal, svo í viðtal á staðnum og í gær var svo hringt í mig, og mér sagt að ég hafi fengið  starfið," segir Kristín sem var ein af þremur sem komust í lokaumferð umsækjenda. 

Kristín mun starfa fyrir Vanoc, ólympíunefndina í Vancouver.  Að sögn Kristínar felst starfið í því að hafa yfirumsjón yfir 250 manna hópi tungumálasjálfboðaliða frá keppnislöndunum, sem verða til staðar fyrir keppendur. 

„Mitt starf verður að ráða fólkið og þjálfa það til þess að túlka t.d fyrir framan fjölmiðla.  Þegar að leikunum kemur þarf að ákveða staðsetningu túlkanna, t.d hverjir eigi að vera á flugvellinum, á keppnissvæðinu, í fjölmiðlum.  Það þarf að fylgjast vel með greinunum og hver sé líklegur til þess að vinna, og sjá til þess að túlkur sé fyrir þá ef þörf er á," segir Kristín. 

Kristín byrjar í starfinu 1. júní næstkomandi og segir undirbúning fyrir ólympíuleikana vera kominn á fullt.  „Það er mikil uppbygging nú í Vancouver og m.a er verið að byggja ólympíuþorp núna.  Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu," segir Kristín. 

Kristín segir að hún komist nú  loksins á vetrarólympíuleika en hún æfði skíði í 10 ár og var í unglingalandsliðinu á sínum tíma, og hefur því lengi dreymt um að komast á ólympíuleika.  „Starfið sameinar tvennt sem ég elska, tungumál og íþróttir," segir Kristín. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert