„Forgangsakreinar strætó eru hunsaðar, sérstaklega í Lækjargötu,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., og bætir við: „Vagnstjórar eru orðnir þreyttir á ástandinu.“
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar í Reykjavík, segir að það hafi ekki komið fyrir að menn hafi verið sektaðir fyrir að keyra á forgangsakreinunum, en það þurfi að skilgreina brotið betur í löggjöfinni. „Farið var af stað með þessar akreinar án þess að vera með skýr úrræði,“ segir Guðbrandur.
Búið er að leggja fram frumvarp á Alþingi þar sem bætt verður inn í umferðarlögin nýjum málslið, sem er svohljóðandi: „Almenn umferð ökutækja um forgangsakreinar strætisvagna og leigubifreiða er óheimil.“
Ólöf Nordal, formaður samgöngunefndar og ein þeirra sem lögðu málið fyrir Alþingi, segir að ekki sé enn komið að málinu hjá nefndinni. Hún segir lögregluna ekki hafa lagalega heimild til þess að sekta eins og lögin eru í dag.