Frumvarp um kjarnavopnalaust Ísland í 8. sinn

Kjarnorkusprengja springur yfir Hiroshima í Japan, 6. ágúst 1945.
Kjarnorkusprengja springur yfir Hiroshima í Japan, 6. ágúst 1945. AP

Fram hefur verið lagt á Alþingi í áttunda skipti frumvarp um að Ísland verði gert að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, er fyrsti flutningsmaður en hann lagði fyrst fram frumvarp þessa efnis árið 1987 og hefur síðan lagt fram svipuð frumvörp sjö sinnum til viðbótar, síðast árið 2000. Á áttunda áratug síðustu aldar lögðu þingmenn Alþýðubandalagsins fjórum sinnum fram þingsályktunartillögu um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði.

Þingmenn úr Samfylkingu, Framsóknarflokki og Frjálslynda flokknum leggja fram tillöguna með Steingrími nú. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að það hafi tekið þeim breytingum frá árinu 2000 að það nái ekki lengur til efnavopna. Sem betur fer hafi Íslendingar nú fullgilt samning um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra sem, eins og nafnið gefi til kynna, feli í sér allar þær skuldbindingar sem friðlýsing landsins fyrir efnavopnum feli í sér.

Í greinargerðinni segir, að þörfin fyrir að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum hafi því miður fremur aukist en hitt vegna atburða á alþjóðavettvangi. Um leið hafi brotthvarf bandaríska hersins og lokun herstöðvarinnar gert að verkum að auðveldara ætti að vera að friðlýsa landið fyrir kjarnorkuvopnum.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert