Álvírar í háspennustrengi verða fjórðungur framleiðslu álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði þegar verksmiðjan nær fullum afköstum. Gert er ráð fyrir að 90 þúsund tonn af vír verði send utan á markaði árlega.
Víraframleiðsla er þegar hafin í steypuskála verksmiðjunnar og fara fyrstu gámar með vírum frá Mjóeyrarhöfn í næstu viku. Tuttugu manns munu starfa við framleiðslu víranna.
Vélasamstæðan sem vírinn er framleiddur í er í raun sjálfstæð verksmiðja inni í álverinu og kemur frá ítalska fyrirtækinu Continuus Properzi. Fimm starfsmenn þeirra hafa undanfarið unnið að uppsetningu og prófunum á samstæðunni, ásamt starfsmönnum frá vírasteypum Alcoa í Baie Comeau og Bécancour í Kanada.
Gangsetning álversins stendur enn yfir og er nú langt komin. Er reiknað með að verksmiðjan komist í full afköst innan ársins. Um fjögur hundruð starfsmenn vinna nú í álverinu, beint fyrir Alcoa Fjarðaál eða undirverktaka.