Ísland á erindi í öryggisráðið

Frá fundi öryggisráðs SÞ.
Frá fundi öryggisráðs SÞ. AP

Kristín A. Árnadóttir, sem stýrir framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, segir kosningabaráttuna ganga vel, en kosið verður í október. Víða um heim er verið að vinna mjög markvisst kynningarstarf, ekki síst í New York þar sem SÞ hafa höfuðstöðvar sínar. Hún segir Ísland eiga erindi í öryggisráðið.

„Það er rífandi gangur,“ segir Kristín í samtali við mbl.is og bendir á að íslenska utanríkisþjónustan sé mjög öflug auk þess sem sendiskrifstofur og sendiherrar um allan heim vinni mjög gott starf. Þá tekur hún sérstaklega fram að Ísland eigi mjög gott samstarf með Norðurlandaþjóðunum. „Þær líta á þetta sem sameiginlegt norrænt framboð líkt og við gerum.“

Ísland hefur lýst yfir framboði til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2009-2010 en öryggisráðið ber aðal ábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis á grundvelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í öryggisráðinu sitja 15 þjóðir hverju sinni frá öllum heimsálfum en Ísland er eitt fárra Evrópuríkja sem aldrei hefur átt þar sæti.

Kristín bendir á að nýverið hafi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra verið stödd í New York til að kynna land og þjóð, en Ingibjörg átti m.a. fund með Ban ki-Moon, framkvæmdastjóra SÞ. Þá mun Geir H. Haarde forsætisráðherra heimsækja borgina í mars.

Ísland mjög sýnilegt 

Kristín segir að það veki mikla athygli hve Ísland er sýnilegt, virkt og með mikla þyngd í sínu starfi. Kynningarstarfið einskorðist þó ekki við New York því miklu skipti að Ísland eigi í samræðum við hópa jafnt sem einstaka fulltrúa um þau mál sem Íslendingar láta sig varða víða um heim. Hún segir að Ísland eigi í stöðugum viðræðum við öll 190 ríkin sem skipa SÞ, bæði til að tryggja það að þau ríki sem þegar hafa heitið Íslandi stuðningi í fyrri umferð kosninganna standi við gefin fyrirheit og til að leita eftir stuðningi þeirra og annarra ríkja í seinni umferðinni, ef til þess kemur.

„Ég held að stóra verkefnið, þessa mánuði sem eftir eru, sé að halda áfram þessu góða starfi sem við erum að vinna. Í því felst að kynna Ísland, kynna fyrir hvað Ísland stendur og hvaða árangri við höfum náð á margvíslegum sviðum, og getum þ.a.l. bæði miðlað og verið trúverðug. Við eigum erindi á alþjóðavettvang, í öryggisráðið líkt og aðrar alþjóðlegar stofnanir.“

Ísland etur kappi við Austurríki og Tyrkland um sætin tvö. Til að komast áfram upp úr fyrstu umferðinni þarf Ísland 128 atkvæði.

Kristín A. Árnadóttir.
Kristín A. Árnadóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka