Hafist hefur verið handa við að skipta um sæti í millilandaflugvélum Icelandair. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, verður heilmikil breyting á upplifun farþega af fluginu með tilkomu nýju sætanna.
„Það sem við erum að gera núna á þessu ári er að breyta algjörlega öllum innréttingum í vélunum. Við hreinsum sætin úr og setjum ný. Þau líta öðruvísi út, eru ljósgrá leðursæti,“ segir Guðjón. Í hverju sætisbaki er snertiskjár sem er í raun afþreyingar- og skemmtikerfi. Hægt verður að velja úr fjölda sjónvarpsþátta og tölvuleikja auk alls kyns tónlistar, svo og bóka og annars lesefnis. „Við erum með þarna nokkrar splunkunýjar bíómyndir og það er borgað fyrir þær,“ segir Guðjón og nefnir líka seríur, t.d. Friends, Frasier og Simpsons. „Þarna er líka fræðsluefnisrás og íslenskt landkynningarefni.“ Hver og einn farþegi hefur þannig aðgang að fjölmörgum rásum, auk þess sem aðgangur er að tölvuleikjum í kerfinu.