„Það er alveg ljóst að ef þessi kaup brjóta í bága við samkeppnislög að mati samkeppniseftirlitsins þá verður ekkert af þeim,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur (OR), um frumúrskurð Samkeppnisyfirvalda vegna fyrirhugaðra kaupa OR á 14,65 prósent hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja (HS).
Samkvæmt úrskurðinum telur Samkeppniseftirlitið að það myndi stangast á við lög að OR eigi yfir 30 prósent hlut í HS. Aðilar málsins hafa frest til 10. mars til að skila andmælum vegna málsins.
Júlíus Vífill segir að OR eigi eftir að lýsa skoðunum sínum á því og fara yfir lagalegar forsendur. „En það eru fyrirvarar í samkomulagi okkar við Hafnarfjarðarbæ varðandi þennan þátt og menn geta rétt ímyndað sér hvort Orkuveitan ætli sér að fara gegn lögum í þessum efnum. Það kemur ekki til greina.“
Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, segir að ef frumúrskurðurinn snúist um 30 prósent eignarhald sé lítið mál að selja OR aðeins minni hlut en ætlað var í upphafi. „En ef þeir eru að tala um allt eignarhaldið þá höfum við alltaf sagt að það sé vandamál kaupandans, Orkuveitu Reykjavíkur, vegna þess að kaupin eru gerð án fyrirvara. Hún hefur áður keypt af Grindavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði og sveitarfélögin hafa auðvitað hafnað forkaupsrétti á þeim hlutum sem fóru yfir til Geysis Green Energy. Það er mjög erfitt fyrir samkeppnisyfirvöld að hoppa inn í og dæma að einhver sala sé óskyld þegar forkaupsréttarákvæðin eru útrunninn.“