Hrein erlend staða íslenska þjóðarbúsins var neikvæð um sem nemur 113 prósentum af vergri landsframleiðslu við lok þriðja ársfjórðungs 2007. Í lok árs 2003 var hún neikvæð um 63 prósent. Hún hefur því næstum tvöfaldast á fjórum árum.
Samkvæmt hagtölum Seðlabankans voru erlendar skuldir Íslendinga alls 7.255 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2007 en erlendu eignirnar 5.878 milljarða króna virði. Íslenska þjóðarbúið skuldar því 1.377 milljörðum króna meira erlendis en það á.
Daníel Svavarsson og Pétur Örn Sigurðsson, hagfræðingar hjá Seðlabanka Íslands, rituðu grein um þetta í Peningamál síðastliðið sumar undir heitinu „Erlend staða þjóðarbúsins og þáttartekjur“. Þar segja þeir meðal annars að hreinar skuldir íslenska þjóðarbúsins séu með því mesta sem þekkist í heiminum og að staða þess sé orðin afar neikvæð í hlutfalli við landsframleiðslu. Þá séu erlendu skuldirnar að aukast hraðar en eignirnar.
Daníel segir Ísland vera meðal þeirra landa heims sem eigi einna mestar eignir erlendis í hlutfalli við landsframleiðslu en sé að sama skapi einnig í hópi þeirra landa sem skuldi hvað mest. „Ísland er frekar ungt opið markaðshagkerfi í gríðarlegum vexti. Það að tiltölulega stutt er síðan hömlum á fjármagnsflutningum var aflétt og ríkisbankarnir einkavæddir skýrir að miklu leyti gríðarlega öra aukningu á beinni fjárfestingu okkar erlendis. Það tekur hins vegar tíma að byggja upp fyrirtækjarekstur erlendis og að skila hagnaði og því líklegt að þessar eignir okkar séu ekki enn farnar að skila okkur fullum arði.“
Hann segir tölurnar þó sýna að hin svokallaða útrás íslenskra fyrirtækja hafi að verulegu leyti verið fjármögnuð með erlendu lánsfé. „Íslendingar eru ekki að spara og því er útrásin fjármögnuð með lánum sem tekin eru í útlöndum. Mikill viðskiptahalli hér á landi er þó fyrst og fremst afleiðing mikilla fjárfestinga í raforku og álframleiðslu síðustu ár, en stóran hluta hallans má einnig rekja beint til óseðjandi neyslugleði landans. Það eru því ekki einungis bankarnir sem fjármagna sig erlendis. Bankarnir taka erlend lán til að endurlána m.a. á Íslandi bæði til fjárfestinga og neyslu. Við í Seðlabankanum höfum verið að vekja athygli á og vara við miklum viðskiptahalla og mikilli erlendri skuldasöfnun. En hingað til virðist það ekki hafa vakið mikla athygli.“