Um eitthundrað ungir sem aldnir jafnaðarmenn tóku þátt í málþingi á Grand Hótel í Reykjavík sem ungliðahreyfing Samfylkingarinnar stóð fyrir. Þingið bar yfirskriftina Ég er jafnaðarmaður og sagði Eva Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Ungra jafnaðarmanna að þingið hefði tekist ákaflega vel.
„Það var farið yfir jafnaðarstefnuna og fólk var ánægt með að komast í hugmyndafræðilegt spjall," sagði Eva í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Málstofur um Evrópumál og Innflytjendamál
Hún sagði að haldnar hefðu verið tvær málstofur, önnur fjallaði um Evrópumálin og hin um innflytjendamálin. „Þar komu fram margar skemmtilega hugmyndir sem verða örugglega nýttar áfram í frekari vinnu og stefnumótum hjá flokknum," sagði Eva.
Eva sagði að erindi Aðalsteins Leifssonar lektors í Háskólanum í Reykjavík. „Hann fjallaði um Evrópuhugsjónina og þau gildi um frið og jöfnuð sem Evrópusambandið hvílir á," sagði Eva.
Fordómar hafa aukist
Í innflytjendamálstofunni ræddi Amal Tamimi um hagnýtar lausnir sem hún hefur séð virka vel í hennar starfi hjá Alþjóðahúsinu.
„Dane Magnússon og Laufey Ólafsdóttir sem stofnuðu anti-rasistafélagið í fyrra slógu rækilega í gegn í erindi sínu um fordóma. Dane er sjálfur svartur og hefur reynslu af því hvernig fordómar hafa aukist og vaxið á Íslandi undanfarið," sagði Eva að lokum.