Íslenska skjaldarmerkið er í forgrunni veggspjalds Vífilfells sem ætlað er að auglýsa sérkjör á krám í Reykjavík í tilefni af því að í dag eru 19 ár liðin frá lögleiðingu bjórsins. Að vísu er um afbökun á ríkisskjaldarmerkinu að ræða þar sem landvættirnar fjórar sjást með ölkrús í hönd.
Í 12. grein laga um ríkisskjaldarmerkið segir að skjaldarmerki Íslands sé auðkenni stjórnvalda ríkisins og að notkun á því sé þeim einum heimil. Snorri Jónsson hjá auglýsingastofunni Vatíkaninu sem hannaði veggspjaldið segir að þar hafi menn ekki leitt hugann að lögum um skjaldarmerkið þegar auglýsingin var gerð en það hafi alls ekki verið gert í þeim tilgangi að brjóta lög.
Sé umrædd auglýsing brot á lögum um ríkisskjaldarmerkið gætu lög um þjóðfána Íslands einnig átt við þar sem fánann er að finna á sjálfu skjaldarmerkinu en í fánalögum segir að enginn megi óvirða þjóðfánann í verki. Þá gæti veggspjaldið brotið gegn áfengislögum því bannað sé að sýna neyslu áfengis í auglýsingum.