Hinn sextán ára gamli Stefán Blackburn, sem á fimmtudag var dæmdur í fjögurra ára óskilorðsbundið fangelsi, er sem stendur vistaður í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Dómurinn yfir honum er þyngsti óskilorðsbundni dómur sem svo ungur einstaklingur hefur hlotið hérlendis.
Samningur um vistun fanga undir átján ára aldri hefur verið í gildi milli Barnaverndarstofu og fangelsismálayfirvalda frá árinu 1998, en hann miðar að því að börn séu að jafnaði vistuð á meðferðarheimilum frekar en í fangelsum. Samkvæmt heimildum 24 stunda hafði Stefán þó áður verið vistaður á slíkum heimilum en þau treystu sér ekki til að taka við honum að nýju. Hann hefur því dvalið í fangelsi frá því að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í apríl í fyrra, þá fimmtán ára gamall.
Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segist ekki telja að skortur sé á úrræðum til vistunar fanga undir átján ára aldri og telur engar forsendur fyrir hendi til að setja upp sérstakt unglingafangelsi. Hann telur þó almennt að fangelsi séu ekki staður fyrir börn. „Oftast er enginn á þessum aldri í kerfinu hjá okkur þannig að þá yrðum við líklega að vista aðra afbrotamenn þar líka.“