Sjaldgæfir góupáskar

Páskaegg
Páskaegg mbl.is/Ásdís

Góupáskar verða í ár og síðan ekki aftur fyrr en árið 2160 eða eftir 152 ár, að því er fram kemur í grein Þorsteins Sæmundssonar stjörnufræðings á vefsíðu Almanaks Háskóla Íslands (www.almanak.hi.is).

Þorsteinn segir algengast að páskadagur sé í einmánuði samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Samkvæmt því er einmánuður síðasti mánuður vetrar og hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar sem getur verið frá 22. til 26. mars.

Ef páskar eru mjög snemma líkt og nú, en páskadagur er 23. mars, getur páskadagur fallið á góu og af því er nafnið góupáskar dregið. Slíkt er mjög sjaldgæft og vekur gjarna nokkra athygli, að sögn Þorsteins. Á síðustu öld gerðist þetta aðeins tvisvar, árin 1913 og 1940. Á þessari öld hendir það aðeins á þessu ári.

Meðaltími milli góupáska er 35 ár, en bilið getur farið niður í ellefu ár og allt upp í 152 ár. Þannig verða góupáskar ekki aftur fyrr en langt verður liðið á næstu öld eða árið 2160 eins og fyrr segir.

Góa er fimmti mánuður vetrarins samkvæmt forníslenska tímatalinu. Hún hefst á sunnudegi í 18. viku vetrar, sem yfirleitt fellur á tímabilið 18.-24. febrúar nema á eftir svonefndu rímspillisári, þá 25. febrúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert