Vilja kurteisi við andstæðinginn

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Frikki

Á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík á miðvikudaginn var borin fram tillaga þriggja fundarmanna þess efnis að samfylkingarfólk eigi að gæta sín í orðavali, hvort sem er í ræðu eða riti, þegar fjallað er um pólitíska andstæðinga jafnt sem samstarfsmenn.

Var þar einnig kveðið á um að ekki eigi að vega að mönnum að óþörfu eða gagnrýna andstæðingana harðar eðlilegt geti talist.

„Það þarf alltaf öðru hverju að skerpa á því að menn vandi mál sitt í ræðu og riti, ekki síst núna á þessum síðustu og verstu tímum,“ segir Guðlaugur Pálmi Magnússon, einn flutningsmanna tillögunnar. „En það var enginn sérstakur nefndur á nafn,“ tekur hann fram.

Skilaboð til Össurar

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir ekki óeðlilegt að draga þá ályktun af þessu að samfylkingarfólk sé ekki sátt við hvernig Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur tjáð sig á veraldarvefnum undanfarið. „Ég held að svona tillaga komi ekki fram nema sem vísbending um að fólk sé ekki sátt.“

Tillögunni var vísað til stjórnar Reykjavíkurfélagsins, en hvorki Guðlaugur né þeir stjórnarmenn sem 24 stundir ræddu við vildu afhenda tillöguna. Þátttakendur fundarins hafa þó staðfest hvert innihald hennar var.

Talsverðar umræður sköpuðust um tillöguna, þar sem nafn iðnaðarráðherra bar töluvert á góma samkvæmt heimildum 24 stunda. Niðurstaða umræðnanna varð sú að ekki væri rétt að fundarmenn sendu út gagnrýni á ráðherrann og því var tillögunni vísað til stjórnar eins og áður sagði.

Þá þótti ekki heldur rétt að vísa tillögunni frá, því að með því væri gefið í skyn að ekki væri sátt um það meðal samfylkingarfólks að gæta þurfi orða sinna þegar fjallað er um pólitíska andstæðinga og samherja.

Ekki náðist í iðnaðarráðherra við vinnslu fréttarinnar.

Í hnotskurn
„Hvað lá eftir Gísla Martein þegar kom að atburðarásinni kringum REI? Ekkert, nema hræin af mávunum sem hann lét embættismenn skjóta og stillti sér svo upp hjá einsog Rambó sjálfur.“ „[Gísli Marteinn] liggur í pólitísku blóði sínu fyrir eigin tilverknað og á varla afturkvæmt [n]ema kraftaverk gerist.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert