Bændur þinga

Frá bændaþingi 2008.
Frá bændaþingi 2008.

Haraldur Benediktsson formaður bændasamtakanna lagði mikla áherslu á mikilvægi íslensks landbúnaðar sem væri nauðsynlegur til að tryggja mataröryggi þjóðarinnar. Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti á Búnaðarþingi 2008 sem var sett í Súlnasal Hótels Sögu fyrir skömmu.

Í ræðu sinni nefndi hann einnig aukna eftirspurn frá ört vaxandi markaðssvæðum, einkum Kína og Indlandi, hátt olíuverð og aukna áherslu á framleiðslu á lífrænu eldsneyti sem leiða til breytinga.

Vaxandi markaðir í Asíu

„Spurningin er ekki hvort hægt verður að selja matvæli í framtíðinni,  heldur hvernig megi sjá öllum þessum fjölda fyrir nægu kjöti og mjólk, grænmeti og ekki síst lífrænu eldsneyti. Þetta er alvarlegt vandamál sem landbúnaðurinn á heimsvísu stendur frammi fyrir.”

Við þær aðstæður sem nú eru uppi telja Bændasamtökin að rétt sé að skilningur ríki um breyttar aðstæður milli bænda og neytenda.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flutti hátíðarræðu Búnaðarþingsins og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði samkomuna og veitir árleg landbúnaðarverðlaun.

Hátt verð á aðföngum bænda

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýsti miklum áhyggjum af háu verði á áburði, fóðri, eldsneyti, öðrum aðföngum og fjármagni sem nú skelli með ofurþunga á landbúnaðinn. „Án þess að ég ætli að hafa uppi neina heimsendaspádóma, þá þarf ekki mikinn snilling til þess að sjá að þetta mun með einhverjum hætti bitna á bændum, afurðastöðvum og neytendum. Hækkun á verði aðfanga mun semsagt hafa neikvæð áhrif á lífskjör allra þeirra sem við þurfa að búa. Í þessu tilviki er víst enginn undanskilinn, svo mjög sem búvöruframleiðslan skiptir allan almenning máli, svo ekki sé talað um bændur og fyrirtæki þeirra. Þetta er þess vegna grafalvarlegt mál," sagði Einar Kristinn.

„Bregðast þarf við breytingum" 

„Það er ljóst að það verður verkefni næstu mánaða og missera að bregðast við þessum breytingum og leita leiða til þess að vinna sig út úr þessum vanda, " sagði hann og bætti við: „ Verðlagsnefnd búvara hefur að undanförnu skoðað þessi mál og mun gera það áfram frá öllum hliðum. Ætla má að hækkun kostnaðarliða í landbúnaði muni enn auka hagræðingu í greininni og hvetja menn til þess að leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði.“


Yfirskrift þingsins að þessu sinni er: Að lifa af landsins gæðum


Bændaþing 2008 var sett á Hótel Sögu í dag.
Bændaþing 2008 var sett á Hótel Sögu í dag. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert