Suðurlandsvegur lokaður

mbl.is/Guðmundur Karl

Vonskuveður er í kringum Vík í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. . Lögreglan á Hvolsvelli var að setja upp vegartálma við Ásólfsskála undir Eyjafjöllum þar sem margir ökumenn hafa ekki tekið mark á viðvörunum um að Suðurlandsvegur væri lokaður og ekið af stað út í kófið. Er fjöldi bifreiða fastur á Sólheimasandi og eru björgunarsveitir og lögregla að bjarga fólki úr bílunum og koma því í skjól.

Vegagerðin er hætt störfum á þessum slóðum enda veðrið þannig að það á enginn að vera á ferðinni, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Lögregla biður fólk um að taka mark á upplýsingum um að Suðurlandsvegur er lokaður frá Ásólfsskála undir Eyjafjöllum allt austur til Víkur í Mýrdal og reyna ekki að aka þessa leið.  Vegurinn verður lokaður í alla nótt.

Hálkublettir og skafrenningur er á Reykjanesbraut, hálka og skafrenningur á Grindarvíkurvegi. Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði,  Sandskeiði og í Þrengslum, á Suðurlandi er hálka og skafrenningur  á flestum leiðum þó er snjóþekja á stökum stað.

Á Vesturlandi eru hálkublettir, hálka og éljagangur. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Hálka og éljagangur er á Fróðárheiði. Þæfingsfærð á Útnesvegi.

Á Vestfjörðum er hálka í Ísafjarðardjúpi. Þæfingur er á
Steingrímsfjarðarheiði en gera má ráð fyrir að færð þyngist eftir að þjónustu líkur. Á sunnanverðum Vestfjörðum er hálka og skafrenningur. Á
Klettshálsi er þæfingur og skafrenningur.

Á Norður- og Norðausturlandi er hálka og hálkublettir á flestum leiðum, þó
er  snjóþekja á útvegum.

Á Austurlandi eru hálkublettir á Fagradal, hálka á Fjarðarheiði, Oddskarði
og á Möðrudalsöræfum, annars snjóþekja og hálkublettir og flestum leiðum. Á Suðausturlandi eru hálkublettir, snjóþekja og skafrenningur. Lokað er um Reynisfjall og Mýrdal, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert