Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður í Kópavogi, segir að týnd skjöl séu tifandi tímasprengjur á Íslandi. Af á annað þúsund skjalabrettum í Þjóðskjalasafni segir hann minnsta hlutann fullnægjandi skráðan, en óskráð skjöl eru týnd skjöl.
Hrafn segir Þjóðskjalasafn Íslands enga burði hafa til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu með opinbera kerfinu og ekki geri menntamálaráðuneytið neitt til þess að bæta þar úr. Því sé nauðsynlegt að koma safninu úr ráðuneytinu og undir Alþingi sem eftirlitsstofnun á borð við Ríkisendurskoðun. Eftir höfðinu dansa limirnir og linka menntamálaráðuneytisins um málefni Þjóðskjalasafnsins hefur leitt af sér, að fyrirmæli safnsins eru að litlu eða engu höfð í opinbera geiranum og í upplýsingafræði í Háskóla Íslands eru kennd atriði sem ganga þvert á þær reglur sem Þjóðskjalasafnið hefur sett.
Hrafn bendir á að skjalasafn sé ekki einasta til fyrir hagsmuni þess opinbera heldur líka borgaranna. Það sé ein af forsendum réttarríkisins að allir séu jafnir fyrir lögunum um rétt til skjala og þar sem skjalavörzlu er áfátt þar er borgaralegum réttindum og sjálfu réttarríkinu ógnað.