Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að stærstu skuldir þjóðarbúsins séu skuldir fjármálastofnanna sem nú hafi fengið frelsi til að athafna sig. Stærsti hluti skuldanna séu umsvif þeirra á alþjóðlegum markaði. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma um efnahagsmál á Alþingi í dag.
Geir segist telja að nýir kjarasamningar muni draga verulega úr óstöðugleika og stuðla að stöðugleika og minni verðbólgu.
Hann
segir að það hafi verið vitað að þegar kæmi að lokum stóriðjuframkvæmda
á Austurlandi þá myndi draga úr þenslu. En óróleikinn á alþjóðlegum
mörkuðum hafi smitast hingað og búast megi við að óróleikinn verði
áfram í einhvern tíma. Það sem hafi breyst er að
hlutabréf lækka í verði um allan heim og fjárfestar vilja frekar leggja
inn á trausta reikninga en taka áhættuna. Staðan sé nú sú að svokallað
skuldatryggingarálag, sem ekki vera til fyrir tíu árum, hefur hækkað
alls staðar en mest á íslensku bönkunum því miður þar sem fyrir því eru
engin rök, að sögn forsætisráðherra. Hið sama gildir um
skuldatryggingarálag á íslenska ríkið sem hefur einnig hækkað og
er nú rúmlega 200 punktar. Þetta gerist þrátt fyrir að nýleg
skýrsla frá lánshæfismatsfyrirtækinu Moody's staðfesti hæstu
lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins og þar sé enn fremur vakinn athygli
á því að langtímahorfur íslenska ríkisins séu mjög góðar.
Fjárhagsstaða bankanna sé traust og þeir hafi nóg lausafé, samkvæmt
Moody's og hefur íslenska ríkið því alla burði til að takast á við
fjármálakreppu.
Geir bætti því við að um miðjan janúar hafi verið kynnt endurskoðuð þjóðhagsspá en líklega hafi horfur versnað frá þeim tíma og hagvöxtur verði minni en þá var spáð í ár og á því næsta.
Að sögn Geirs hefur ítrekað komið fram gagnrýni í umræðum á Alþingi um að ríkisútgjöld séu að aukast. Segir Geir að það sýni sig að það var skynsamleg ráðstöfun að leggja til hliðar fjármuni þegar þenslan var sem mest og nú þegar það fer að harðna á dalnum til að mynda í byggingariðnaði sé gott að grípa til þessara framkvæmda til að jafna metin.
Aðspurður segir Geir að engin ákvörðun hafi verið tekin um frestun stóriðjuframkvæmda enda ákvörðun um slíkt tekin annars staðar en hjá stjórnvöldum. Hann segist hins vegar telja að nú sé mikilvægt að fara út í stóriðjuframkvæmdir til að halda þjóðfélaginu gangandi.