Guðni Ágústsson: Ábyrgðin hjá forsætisráðherra

Frá Alþingi
Frá Alþingi Sverrir Vilhelmsson

Guðni Ágústsson, Framsóknarflokki,  segir að ábyrgðin á því hvernig staðan er í íslensku efnahagslífi sé öll hjá forsætisráðherra og öðrum í ríkisstjórninni og að ríkisstjórnin hafi allt of seint gripið inn.

Guðni sagðist fagna því að tveir háttvirtir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi tekið undir stefnu Framsóknarflokksins í blaðagrein og sá þriðji, Sigurður Kári Kristjánsson, taki einnig undir það í dag í blöðunum. Segist hann fagna því að sjálfstæðismenn séu að vakna hver af öðrum og þá sérstaklega unga fólkið í flokknum en bætti við að ekki væri sýnilegt að eldri kynslóðin í flokknum sé að vakna.
Það kunni að vera að þessir þingmenn sofi á nóttinni eins og forsætisráðherra hefur lagt upp úr með ráðherra Samfylkingarinnar, segir Guðni.

Að sögn formanns Framsóknarflokksins er nauðsynlegt að forsætisráðherra geri sér grein fyrir því að það er ríkisstjórnin sem stjórnar efnahagsmálunum á Íslandi ekki Seðlabankinn.

Segir skuldatryggingarálag úr takt

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, segir að lækkanir á hlutabréfamörkuðum muni setja mark sitt á fjármálamarkaðinn á næstunni en nauðsynlegt sé að halda ró sinni. Það sé ónauðsynlegt að tala vandann upp og bankana niður. Björgvin fagnaði í umræðum á Alþingi því að Kaupþing hafi fjármagnað sig á mun betri kjörum heldur en skuldatryggingarálag bankans bendi til og segir viðskiptaráðherra það sýna að álagið sé gjörsamlega úr takt við raunveruleikann.

Vill að forsætisráðherra upplýsi þjóðina

Guðjón A. Kristinsson, Frjálslynda flokknum, vísaði til frétta Financial Times þar sem rætt hefur verið við Geir H. Haarde um efnahagsmál á Íslandi. Segist Guðjón telja að forsætisráðherra væri nær að upplýsa þjóð sína um ástandið.  Að sögn Guðjóns er sýnt að 400-500 manns muni missa vinnuna á komandi mánuðum í sjávarútvegi og þessari þróun verði að snúa við.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert