Klófestir með hjálp tálbeitu

„Þeir nota tálbeitu og leyfðu glæpnum að viðgangast í heilt ár,“ segir Jóhannes Páll Sigurðsson.

Jóhannes var í gær sakfelldur ásamt átta öðrum í DC++ málinu svokallaða fyrir að dreifa forritum, kvikmyndum og tónlist á Netinu. Í dómi héraðsdóms kemur fram að varnir ákærðu hafi að hluta lútað að því að tálbeita hafi verið notuð.

Jóhannes segir meintu tálbeituna hafa slegist í hóp hinna níu ákærðu undir fölskum forsendum eftir að hún hafði samband við Smáís og bauð fram hjálp sína. „Það voru einhver illindi og hann ætlaði að hefna sín,“ segir Jóhannes og bætir við að hann hafi verið með öfluga tengingu og það hafi tekið mun skemmri tíma að hala niður efni frá honum en öðrum. „Hann hvatti okkur til að ná í efni frá sér.“

Tálbeitur ekki viðurkenndar

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, staðfestir að aðilanum hafi verið greitt fyrir að ganga í DC++ samfélagið en gefur ekki upp hversu mikið. Snæbjörn segir að ekki hefði verið hægt að ákæra í málinu án upplýsinga frá aðilanum, en vísar á bug að hann hafi verið tálbeita.

„Hann var lykilmaður. Það þurfti einhver að komast þarna inn svo hægt væri að fylgjast með og safna upplýsingum og gögnum,“ segir Snæbjörn. „Þarna voru menn að fremja brot án hans tilkomu. Hann kom inn fyrir okkar hönd til þess að skrá niður hvað var þarna í gangi. Vissulega þurfti hann að taka þátt í því en hann var með samning frá okkur um að hann væri með leyfi. Notendur DC++ voru hugsanlega ginntir af honum en voru að fremja önnur brot á sama stað.“

Í hnotskurn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert