Hafnfirðingar náðu þeim áfanga að verða 25 þúsund talsins þann 29. febrúar sl. og er Kristófer Máni Sveinsson 25 þúsundasti Hafnfirðingurinn. Kristófer Máni er eins og hálfs árs og flytur úr Garðabæ í Hafnarfjörð.
Lúðvík Geirsson bæjarstjóri afhenti Kristófer Mána sérstakt heiðursskjal í tilefni þessa merka áfanga ásamt góðum gjöfum, að því er segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Í tilefni tímamótanna er bæjarbúum boðið upp á kaffi og kökur í dag í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar í ráðhúsi bæjarins við Strandgötu.
Árið 2000 voru Hafnfirðingar 19.640 og hefur því fjölgað um rúmlega 27% á sl. 8 árum. Mest hefur fjölgunin verðið tvö síðustu ár eða á milli 5-6% sem samsvarar því að íbúum fjölgi um liðlega 100 í hverjum mánuði. Til samanburðar þá fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu öllu um 12% á árunum 2000 til 2007 og í Kópavogi um 21%.
Hafnarfjarðarkaupstaður fagnar aldarafmæli sínu á þessu ári og hafa framkvæmdir aldrei verið meiri en þær nema um 6,7 milljörðum króna. Eftirspurn eftir atvinnu- og íbúðalóðum hefur verið mjög mikil undanfarin ár og hefur mikil uppbygging nýrra hverfa sitt svip sinn á bæjarlífið, segir í tilkynningu.