Rysjótt tíð og mikil úrkoma dregur úr svifryksmengun í borginni en nagladekk eru talin áhrifamesti þátturinn í tilurð svifryks í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar kemur fram að svifryk hefur tvisvar farið yfir heilsuverndarmörk í mælistöð Umhverfis- og samgöngusviðs við Grensásveg. Hlutfall negldra hjólbarða var 44% á móti 56% ónegldra þegar talning fór fram þann 3. mars 2008.
Farstöð mengunarvarna Umhverfis- og samgöngusvið er nú staðsett á gatnamótum Langholtsvegar og Skeiðarvogs, en þar mældist mikil mengun í desember 2005 og janúar 2006 eða í svipuðu magni og á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar.
Umhverfis- og samgöngusvið vill nú kanna hvort álíka mengun mælist á þessum stað ef mælt er á öðrum árstíma, farstöðin var síðast staðsett á horni Miklubrautar og Stakkahlíðar á tímabilinu 7. desember 2007 til 16. janúar 2008, og mældist svifryksmengun þar fimm sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörkum.
Fram kemur í frétt Umhverfis- og samgöngusviðs að Anna Rósa Böðvarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, segir götur hafa verið blautar frá því um miðjan janúar og það hafi áhrif á styrk svifryks í andrúmsloftinu. Anna segir að mars hafi hins vegar oft reynst mikill svifryksmánuður, en í mars er oft þurrt og bifreiðar enn á nagladekkjum.
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar eru sólarhrings-heilsuverndarmörk svifryks (PM 10) 50 míkrógrömm á rúmmetra og mega þau fara átján sinnum yfir heilsuverndarmörk árið 2008.