Umferðaróhapp varð í Bakkaselsbrekku í Öxnadal um klukkan fjögur í dag. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var bæði færð og skyggni slæmt er ökumaður sem festi fólksbíl sín í miðri brekkunni fór út að huga að málinu. Þá var jeppabifreið sem kom niður brekkuna út úr sortanum ekið á kyrrstæða bílinn sem snérist og endaði þversum á þjóðveginum.
Konan sem ók fólksbifreiðinni varð fyrir höggi og var flutt á slysadeild sjúkrahússins á Akureyri til athugunar en mun ekki hafa slasast.
Eftir áreksturinn bar vöruflutningabíl að og náði bílstjóri hans með naumindum að stöðva för sína og endaði hann einnig þversum á þjóðveginum alveg upp við fólksbílinn og jeppann.
Að sögn lögreglu lokaðist þjóðvegurinn í einar þrjár klukkustundir á meðan verið var að greiða úr flækjunni og losa bílana.