Vilja hækkun eða niðurgreiðslu

Óskir um hækkanir búvöruverðs verða meira áberandi nú þegar áburðar- og kjarnfóðurverð hefur hækkað um tugi prósentna á einu ári og olíuverð nær nýjum hæðum með reglulegu millibili. Almennt er rekstrarumhverfi býlanna verra og kúabændur eru að vissu leyti milli steins og sleggju. Kostnaður sveiflast með öfgakenndum hætti en tekjum þeirra er stýrt af kerfi sem fer sér vægast sagt í engu óðslega við verðhækkanir.

Að sögn Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, hafa neytendur víða í Evrópu tekið á sig miklar verðhækkanir landbúnaðarvara á meðan algjört stopp hefur verið hér. Þær séu raunar víða dýrari en hér á landi. Hins vegar geti verið skynsamlegt að ríkið niðurgreiði áburð nú í vor svo þörf bænda fyrir hækkanir til neytenda verði minni, enda þurfi að hemja verðbólgu.

En hvernig hækka búvörur í verði hér á landi? Verðlagsnefnd búvara ákveður verðið sem kúabændur fá fyrir mjólk og einnig heildsöluverð, þ.e. til afurðastöðva. Það er þó bara í vissum vöruflokkum, svo sem ný- og léttmjólk, undanrennu, súrmjólk og vissum gerðum osta og skyrs. Verðlagning á öðrum mjólkurvörum er frjáls, en meira unnar vörur hafa verið verðlagðar hátt og látnar niðurgreiða fyrrnefndar nauðsynjavörur. Verðlagning á kjöti er frjáls en samtök sauðfjár- og kúabænda fylgjast grannt með því hvaða sláturhús bjóða besta verðið til bænda.

Sex menn sitja í verðlagsnefnd, tilnefndir af landbúnaðarráðherra og samtökum launþega, bænda og afurðastöðva. Í september ár hvert er lágmarksverð mjólkur til framleiðenda ákveðið. Nú er það 49,96 kr. á lítra, en í janúar kom fyrsta hækkun til neytenda í tvö ár. Verð til bænda var hækkað lítillega í þrepum á síðasta ári. Lágmarksverð miðast við verðlagsgrundvöll. Hann er uppfærður af Hagstofunni og tekur m.a. tillit til verðs aðfanga á borð við eldsneyti, áburð og kjarnfóður. Mörg undanfarin ár hefur verið verðlagt einu sinni á ári en nú telja bændur ærið tilefni til annars og vilja taka verðið upp hið fyrsta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert