„Nýverið kom hann [biskup] í veg fyrir að öllum trúfélögum á landinu yrði veitt heimild til að gifta samkynhneigð pör,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, nemandi í 10. bekk Laugalækjarskóla, í ræðu sem hann flutti í æskulýðsguðsþjónustu í Laugarneskirkju síðastliðinn sunnudag. „Ég er á þeirri skoðun að athæfi biskups feli ekki einungis í sér grafalvarlega og ókristilega mannfyrirlitningu, heldur ráðist hann einnig til atlögu við sjálfa trúfrelsishugsjónina,“ sagði hann ennfremur. Jóhann Páll segist aðspurður vera trúlaus en hefur þó tekið þátt í unglingastarfinu Andrenalín gegn rasisma í kirkjunni. Í ræðu sinni gagnrýndi hann jafnt vestræna neyslumenningu, presta Laugarneskirkju, Þjóðkirkjuna og ekki síst biskup Íslands.
Vilja opna umræðu um trúna
„Hann hefur verið virkur í unglingastarfi kirkjunnar en á sama tíma verið mjög gagnrýninn á trú og kirkju og auðvitað vissi ég það þegar ég bað hann um að prédika,“ segir séra Hildur Eir Bolladóttir í Laugarneskirkju, aðspurð um hvernig það kom til að Jóhann Páll flutti ræðu í messunni. „Mér fannst það lærdómsríkt að sitja í kirkjunni og hlusta á manneskju prédika sem ég var ósammála. Það viðheldur heilbrigði kirkjunnar að fólk heyri eitthvað sem það er ekki sammála því þá þarf það að taka sjálfstæða afstöðu til hlutanna. Það er mjög hollt að spyrja sig: hverju trúi ég og hvað skiptir mig máli í trúnni,“ segir Hildur Eir en hún segir nauðsynlegt að í kirkjunni sé vettvangur fyrir opna umræðu um trúmál.
Kirkjan orðin skraut
„Viðbrögðin voru nokkuð góð en andlitin breyttust auðvitað þegar ég fór að tala um Þjóðkirkjuna sjálfa og um það hvernig prestar dreifa í rauninni ranghugmyndum um siðferði, trúmál og kristindóminn,“ segir Jóhann aðpurður um viðbrögð kirkjugesta við ræðunni. Hann segir Þjóðkirkjuna vera orðna hálfgert skraut sem fólk notar til þess að halda upp á merkileg tímamót í lífi sínu. En vandamálið er að þetta skraut bitnar á réttindum annarra trúfélaga og þjófélagshópa. „Prestarnir breiða út þá ranghugmynd að siðferði okkar og samviska eigi rætur sínar í kristindómnum og þannig erum við látin halda að við séum kristin, þótt við séum það ekki.“ Jóhann segir það virðingarvert og tákn um víðsýni hjá Laugarneskirkju að veita sér tækifæri til þess að setja fram skoðanir sínar í kirkjunni. elias@24stundir.is