Bretar hætt komnir í hríðarbyl í Eyjum

Ross og Philip við Gvendarhús í blíðunni á mánudag.
Ross og Philip við Gvendarhús í blíðunni á mánudag. www.eyjafrettir.is

Tveir Bretar voru hætt komnir á sunnudagsmorgun þegar hríðarbylur gekk yfir Vestmannaeyjar, en vegna bylsins rötuðu þeir ekki heim. Bretarnir höfðu verið að skemmta sér í bænum á laugardagskvöldið en vegna ófærðar urðu þeir að fara gangandi upp að Steinsstöðum þar sem þeir búa.  Fram kemur á fréttavefnum Eyjafréttir að við lá að ferðin heim yrði þeirra hinsta og þeir yrðu úti á leið sinni milli bæja.

Hjónin, Sigurgeir og Katrín, sem búa í Gvendarhúsi, vöknuðu af værum blundi á sunnudagsmorgun þegar barið var heldur óþyrmilega á svalahurðina og rúða brotnaði.  Þegar þau fóru fram sáu þau tvo menn sem stóðu úti á veröndinni og voru að reyna að komast inn.  Hjónin sáu strax að þarna voru ekki innbrotsþjófar heldur menn í vandræðum, enda var stórhríð úti.  Að sögn Sigurgeirs hrópuðu mennirnir „í guðanna bænum hleypið okkur inn, við erum að deyja! 

Sigurgeir og Katrínu tókst að opna hurðina og annar mannanna náði að staulast inn fyrir, en hinn hné örmagna niður í snjóskaflinn úti á pallinum, en þeim tókst í sameiningu að bera hann inn fyrir dyrnar.  Sigurgeir hringdi strax í neyðarlínuna en einhver bið var á aðstoð frá björgunarsveit þar sem kolófært var í Eyjum. 

Annar mannanna var hress miðað við aðstæður en hinn hafði örmagnast og lá rænulítill á gólfinu en Sigurgeir fann fljótlega að maðurinn andaði og var með púls.  Að sögn Sigurgeirs rifjaði hann upp skyndihjálp sem hann hafði lært í Stýrimannaskólanum og náðu þau að hlúa vel að Bretunum þannig að vel færi um þá eftir ófarirnar í hríðarbylnum.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert