Ekki um ólöglega mismunun að ræða

EFTA-dómstóllinn telur að ekki sé um ólögmæta mismunun að ræða þegar fyrirtækjum er gert að greiða hærri hafnargjöld hjá Faxaflóahöfnum fyrir lestun og losun áfengra drykkja en óáfengra.

Með dómi sem kveðinn var upp í dag, gaf EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit um tvær spurningar sem honum bárust frá Hæstarétti Íslands í tengslum við mál sem þar er rekið milli HOB-vín ehf. og Faxaflóahafna sf.

Í gjaldskrá Faxaflóahafna er mælt fyrir um hærri hafnargjöld fyrir lestun og losun áfengra drykkja en óáfengra. HOB-vín flytur sjóðleiðis inn áfengi frá öðrum EES-ríkjum og greiðir því hin hærri gjöld. Innanlands er áfengi flutt milli staða landleiðina en ekki sjóleiðis.

Dómstóllinn lagði í fyrsta lagi mat á það hvort álagning hafnargjalda eins og þeirra sem um ræðir í málinu falli undir 10., 11. eða 14. gr. EES-samningsins. Greinarnar varða tolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, magntakmarkanir á innflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif og innlenda skatta. Í úrlausn dómsins kemur fram að gjaldtaka sameignarfélags í eigu sveitarfélaga falli eftir atvikum undir 14. gr. EES um innlenda skatta.

Þá lagði dómstóllinn mat á það hvort hafnargjöld eins og þau sem Faxaflóahafnir sf. innheimta vegna áfengis feli í sér ólögmæta mismunun skv. 14. gr. EES.

Dómstóllinn bar saman stöðu innflutts áfengis gagnvart innlendu áfengi og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri um slíka mismunun að ræða þegar ástæða þess að innlent áfengi ber ekki hafnargjöld er sú að það er ekki flutt sjóleiðis og því ekki þörf fyrir þjónustu hafna við flutninginn. Það væri þó háð því skilyrði að sá sem setur gjaldskrá fyrir hafnarþjónustu setji ekki gjaldskrá fyrir sambærilega þjónustu sem þörf er á vegna innlends áfengis.

Samanburður á stöðu áfengra og óáfengra drykkja leiddi ekki heldur til þeirrar niðurstöðu að um ólögmæta mismunun skv. 14. gr. EES væri að ræða. Í því sambandi skipti þó máli hvort gjöldin hefðu þau áhrif að draga úr mögulegri neyslu á innfluttum vörum, sem kæmi innlendum vörum í samkeppni til góða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert