Fasteignamat ríkisins mun loka tveimur skrifstofum, á Egilsstöðum og í Borgarnesi, á næstu vikum. Starf skrifstofumanns á Egilsstöðum verður lagt niður og flytjast verkefni skrifstofunnar til Akureyrar. Þá hefur verið nefnt við matsmenn stofnunarinnar í Borgarnesi hvort þeir hafi áhuga á að sinna störfum sínum hjá stofnuninni í Reykjavík.
„Ástæður þessara aðgerða eru breytingar í fjárveitingum og brottfall tekjustofna. Við þurfum að spara um sjötíu til áttatíu milljónir króna á ári og eru þessar aðgerðir liður í því,“ segir Haukur Ingibergsson, framkvæmdastjóri Fasteignamats ríkisins.